Ferill 871. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 1405  —  871. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum (varmadælur).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


1. gr.

    Á eftir 10. mgr. 42. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Heimilt er að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa á varmadælu til upphitunar íbúðarhúsnæðis.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í frumvarpi þessu er lagt til að heimilt verði að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa á varmadælu til upphitunar íbúðarhúsnæðis.
    Tímabundin heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á varmadælu til upphitunar íbúðarhúsnæðis er nú til staðar í ákvæði til bráðabirgða XXVII í lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, sbr. lög nr. 68/2014. Í gildistökuákvæði þeirra laga kemur fram að þau falli úr gildi að liðnum fimm árum frá gildistöku þeirra. Lögin voru birt 5. júní 2014 og falla því að öllu óbreyttu úr gildi 5. júní næstkomandi. Í ljósi þeirra jákvæðu áhrifa sem endurgreiðsla virðisaukaskatts hefur haft á upphitunarkostnað í íbúðarhúsnæði á rafkyntum svæðum og búsetuskilyrði á köldum svæðum er nú lagt til í frumvarpi þessu að heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á varmadælu til upphitunar íbúðarhúsnæðis verði gerð varanleg.
    Varmadælur eru umhverfisvænar lausnir sem bæta orkunýtni og lækka rafhitunarkostnað. Hægt er að fá 2–5 kílóvattstundir af hitaorku úr hverri kílóvattstund af raforku sem knýr varmadælu á meðan bein rafhitun skilar aðeins einni kílóvattstund af rafhita fyrir hverja kílóvattstund af raforku sem fer inn í íbúðarhúsnæði. Með notkun varmadælu má þannig mæta sömu hitunarþörf með færri kílóvattstundum af hágæðaraforku. Um varmadælur og fýsileika þeirra hefur talsvert verið fjallað, en Orkusetrið á Akureyri birtir t.d. talsverðan fróðleik um þær á heimasíðu sinni, orkusetur.is/varmadaeluvefur/um-varmadaelur/.
    Líkt og fram kemur í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 68/2014 hefur húshitunarkostnaður á landsbyggðinni verið mjög sligandi fyrir afkomu heimila, sérstaklega á svokölluðum „köldum svæðum“. Vegna þess mikla kostnaðar sem leggst á heimili vegna þessa hefur verulegum fjármunum ríkisins verið ráðstafað til ýmissa aðgerða til að minnka orkukostnað notenda á þeim svæðum á landinu þar sem hann hefur verið mestur. Þetta hefur m.a. verið gert með heimild til niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar, svo sem þegar íbúð sem ekki er á veitusvæði hitaveitu er hituð með raforku með það að markmiði að tryggja öllum landsmönnum aðgang að orku á viðráðanlegu verði, sbr. lög um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, nr. 78/2002. Einnig hefur m.a. verið gripið til aðgerða líkt og lagt er til í frumvarpi þessu sem felast í endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á varmadælu til upphitunar íbúðarhúsnæðis, sbr. lög nr. 68/2014.
    Tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti vegna kaupa á varmadælum í íbúðarhús eru óverulegar. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hafa fjárhæðir endurgreiðslu virðisaukaskatts frá uppgjörstímabilinu maí–júní 2014 til dagsins í dag numið um 40 millj. kr. Sjá nánar eftirfarandi töflu:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í ljósi þeirra fjárhæða sem um ræðir liggur fyrir að beinn og óbeinn ávinningur af endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á varmadælum til upphitunar íbúðarhúsnæðis, sem felst m.a. í auknum jöfnuði á húshitunarkostnaði landsmanna, raforkusparnaði og framlagi til bættra búsetuskilyrða, er mun meiri en sá kostnaður sem felst af endurgreiðslukerfinu sem slíku.
    Endurgreiðsla virðisaukaskatts af kaupum á varmadælum til upphitunar íbúðarhúsnæðis felur í sér skattastyrk. Lög um opinber fjármál, nr. 123/2015, og verklag við skattastyrki eiga að tryggja að ekki séu gerðar síðri kröfur til skattastyrkja en fjárveitinga ríkisins enda hafa þeir bein áhrif á afkomu ríkissjóðs. Fyrir liggur að beinn stuðningur af endurgreiðslum virðisaukaskatts vegna kaupa á varmadælum fellur til neytenda í formi endurgreiðslu virðisaukaskatts af kaupum á varmadælum til upphitunar íbúðarhúsnæðis. Óbeinn stuðningur vegna slíkra endurgreiðslna fellur aftur á móti til söluaðila varmadælna.
    Í 61. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, er að finna almennt bann við ríkisaðstoð. Frá því banni eru þó ákveðnar undantekningar líkt og fram kemur í 2. og 3. mgr. 61. gr. EES-samningsins og afleiddri löggjöf Evrópusambandsins sem tekin hefur verið upp í viðauka við EES-samninginn. Slíka undanþágu er að finna í reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1407/2013 frá 18. desember 2013 um beitingu 107. og 108. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins gagnvart minniháttaraðstoð (de minimis) sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 98/2014. Samkvæmt bókun 3 við EES-samninginn milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls ber aðildarríkjunum almennt að tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) um fyrirhugaða ríkisaðstoð og bíða samþykkis stofnunarinnar áður en aðstoð er veitt. Stjórnvöld þurfa þó ekki að leita samþykkis ESA ef bein eða óbein framlög til hvers fyrirtækis fara ekki yfir 200.000 evrur (u.þ.b. 27.000.000 kr.) á hverju 36 mánaða tímabili, að uppfylltum skilyrðum framangreindrar reglugerðar. Inn í þá fjárhæð skal einnig reikna aðra styrki sem söluaðili hefur fengið frá opinberum aðilum. Með því að setja þetta hámark á styrki fellur endurgreiðslukerfið undir reglur um minniháttaraðstoð (de minimis) ESA og er þar af leiðandi ekki tilkynningarskylt til ESA.